Heimskringla/Ynglinga saga/48
Guðröður hét sonur Hálfdanar er konungdóm tók eftir hann. Hann var kallaður Guðröður hinn mikilláti en sumir kölluðu hann veiðikonung. Hann átti þá konu er Álfhildur hét, dóttir Alfarins konungs úr Álfheimum, og hafði með henni hálfa Vingulmörk. Þeirra sonur var Ólafur er síðan var kallaður Geirstaðaálfur. Álfheimar voru þá kallaðir millum Raumelfar og Gautelfar.
En er Álfhildur var önduð þá sendi Guðröður konungur menn sína vestur á Agðir til konungs þess er þar réð fyrir. Sá er nefndur Haraldur hinn granrauði. Skyldu þeir biðja Ásu dóttur hans til handa konungi en Haraldur synjaði. Komu sendimenn aftur og sögðu konungi sitt erindi. En nokkurri stundu síðar skaut Guðröður konungur skipum á vatn, fór síðan með liði miklu út á Agðir, kom mjög á óvart og veitti upprás, kom um nótt á bæ Haralds konungs. En er hann varð var við að her var kominn á hendur honum þá gekk hann út með það lið sem hann hafði. Varð þar orusta og liðsmunur mikill. Þar féll Haraldur og Gyrður sonur hans. Tók Guðröður konungur herfang mikið. Hann hafði heim með sér Ásu dóttur Haralds konungs og gerði brullaup til hennar. Þau áttu son er Hálfdan hét.
En þá er Hálfdan var veturgamall, það haust fór Guðröður konungur að veislum. Hann lá með skipi sínu í Stíflusundi. Voru þar drykkjur miklar. Var konungur mjög drukkinn. Og um kveldið er myrkt var gekk konungur af skipi en er hann kom á bryggjusporð þá hljóp maður að honum og lagði spjóti í gegnum hann. Var það hans bani. Sá maður var þegar drepinn.
En um morguninn eftir er ljóst var þá var maður sá kenndur. Var það skósveinn Ásu drottningar. Duldi hún þá ekki að það voru hennar ráð.
Svo segir Þjóðólfur:
- Varð Guðröðr
- hinn göfugláti
- lómi beittr,
- sá er fyr löngu var,
- og umráð,
- að ölum stilli,
- höfuð heiftrækt
- að hilmi dró.
- Og launsigr
- hinn lómgeði
- Ásu ár
- af jöfri bar,
- og buðlungr
- á beði fornum
- Stíflusunds
- um stunginn var.