Heimskringla/Ynglinga saga/49

Heimskringla - Ynglinga saga
Höfundur: Snorri Sturluson
49. Dauði Ólafs konungs

Ólafur tók konungdóm eftir föður sinn. Hann var ríkur maður og hermaður mikill. Hann var allra manna fríðastur og mestur vexti. Hann hafði Vestfold því að Álfgeir konungur tók þá undir sig Vingulmörk alla. Setti hann þar yfir Gandálf konung son sinn. Þá gengu þeir feðgar mjög á Raumaríki og eignuðust mestan hlut þess ríkis og fylkis.

Högni hét sonur Eysteins hins ríka Upplendingakonungs. Hann lagði þá undir sig Heiðmörk alla og Þótn og Haðaland. Þá hvarf og undan þeim Guðröðarsonum Vermaland og snerust þeir þá að skattgjöfum til Svíakonungs.

Ólafur var þá á tvítugsaldri er Guðröður konungur andaðist. En er Hálfdan konungur bróðir hans gekk til ríkis með honum þá skiptu þeir Vestfold með sér. Hafði Ólafur hinn vestra hlut en Hálfdan hinn innra. Ólafur konungur hafði að Geirstöðum aðsetu. Hann tók fótarverk og andaðist þar af og er hann heygður á Geirstöðum.

Svo segir Þjóðólfur:

Og niðkvísl
í Noregi
þróttar Þrós
of þróast náði.
Réð Ólafr
ofsa forðum
víðri grund
of Vestmari.
Uns fótverkr
við Foldar þröm
vígmiðlung
of viða skyldi.
Nú liggr gunndjarfr
á Geirstöðum
herkonungr
haugi ausinn.