Járnsíða og kristinréttur Árna Þorlákssonar/Kaupabálkur

Járnsíða og kristinréttur Árna Þorlákssonar (2005)
Höfundur: óþekktur og Árni Þorláksson
Kaupabálkur
Hlutahöfundur: óþekktur

1. [Um gripdeildir]

Það er nú því næst að várr skal engi firi öðrum taka. Ekki skulu vær oss að gripdeildum gera. Dóms er hverr verður firi sína athöfn. En sá maður er firi öðrum tekur, þá skal hann það aftur færa og bæta konungi sex aurum firi það er hann tók ranglega og sæki sitt með lögum síðan. Nú tekur valdsmaður eða sóknarmaður upp bú búanda ótalt og ódæmt eða veitir honum aðra fjárupptekt, þá skal hann færa það aftur og leggja á þrettán merkur, og hverr sekur mörk er honum fylgir til þess. Nú róa menn skipi skipuðu að bónda eða gingur flokkur manna að garði og bera hann ofríki eða brjóta hús hans og bera út fé hans, þá er það útlegðarverk. Hverr er í landi vil vera af þeim færi aftur fé bónda það sem þeir tóku og gjaldi þrettán merkur eða fari útlægur.

2. [Um dóma og vitni]

Eftir vitnum og gögnum skal hvert mál dæma. Svá er ef einn berr vitni með manni sem engi beri, en tveir sem tíu, ef eigi koma andvitni að móti. Nú eru þau vitni er eigi skulu andvitni móti koma, það er heimstefnuvitni og þingstefnuvitni, kvöðuvitni, nauðsynjavitni og forsagnarvitni og þau vitni er borin eru um deild manna að samkundum. En ef maður krefur mann fjár, þá má hann svá kröfu verja að kveðast þá skuld öðrum goldið hafa og nefna vátta sína, þá er við váru. Nú ef váttar eru innan heraðs, þá skal gera þeim lagastefnu að þeir komi þar og beri slíkt vitni sem þeir vitu. Nú bera þeir svá vitni að þeir váru við það að hann lauk þeirri skuld allri sér af hendi, þá hefir hann rétt varða kröfu þá. Það heitir ályktarvitni, þar skal og ekki andvitni í móti koma. En ef váttar koma eigi, þá er hann sekur á kröfu þeirri sex aurum firi kröfu hverja. Bauggildismenn og nefgildismenn og námágar megu eigi bera vitni með manni nema þeir sé báðum jafnskyldir. Taka megu tveir menn við eins vitni og er sá frumváttur er við var, en ef sá er eigi fær annarr er við var og hafa hinir heyrt hans vitni áður, þá er það jafnfullt sem allir hafi við verið að öndverðu.

3. [Um lagastefnur]

Hvervitna er menn skulu gera lagastefnu manna á þingi til lögmanns, þá skal gera hálfs mánaðar stefnu, ef hann er innan heraðs og utan hrepps. Mánaðar stefnu utan heraðs og innan fjórðungs. Tveggja mánaða stefnu utan fjórðungs og innan lands. Erfingi eða umboðsmaður skal máli hans svara ef hann er utan lands. Nú er erfingi skyldur að gera honum boð, ella þingmenn, ef eigi er erfingi á þingi. Viðurmælis er hverr maður verður. Nú sá er eigi ferr til lögmanns löglega stefndur nauðsynjalaust, þá sekist hann tólf aurum við konung. Svá og sá er eigi vil hlíta lögmanns úrskurði, þá sekist hann þrim mörkum við konung.

4. [Um fjársóknir]

Nú er það því næst ef maður á fé að manni það er váttar vitu eða við er gingið, þá skal sá er skuld á að heimta krefja fjár síns með vátta tvá, hvar sem hann hittir þann er lúka á, og gera honum hálfs mánaðar stefnu, en ef eigi er goldin á þeirri stefnu, þá skal sækjandi stefna honum þing og krefja skuldar sinnar sem vitni vitu. Nú er vel ef hann reiðir þar eða umboðsmaður hans. En ef þar verður eigi greitt, þá skal sækjandi nefna svá marga af þingmönnum sem hann þikkist þurfa og fara til heimilis þess er skuld á að gjalda og virða honum þar fé sitt. Sá skal hafa sex aura að harðafangi er sótti. Nú eru allir bændur skyldir til þessarar ferðar af þingi, sekur er hverr þrim aurum við konung er eigi ferr. Sóknarmaður er skyldur að fara til og öðlast með því konungi baug til handa, en ef hann vil eigi fara, þá fellir hann með því baug. Nú standa menn firi og verja oddi og eggju, þá falla þeir allir óhelgir og útlægir er firi standa, en hinir allir friðhelgir er til sækja og laga vilja gæta. En þó að þeir falli eigi er firi standa, þá er sá sekur þrettán mörkum við konung er skuld átti að gjalda, en hverr annarra þrim mörkum.

5. [Um lánsfé]

Nú er lánfé og dæmt fé og allt það er vitni veit og sá gingur við er lúka á, þá skal svá sækja sem nú var sagt: Allt það fé sem vitni veit að eindagað er, þá skaltu svá njóta vátta þinna í eindaga sem þú hefðir honum heim stefnt. Nú kemur sá eigi er féið skyldi taka, en hinn kemur er reiða skal, þá skal bjóða fé í eindaga ef nokkur er þar sá er um sé boðið að taka við fé því með váttum, þá skal þeim í hönd selja. En ef engi er, þá skal segja af ábyrgð sinni og hafi sá er áður hafði og ábyrgist við handvömmum sínum, til þess er sá kemur eftir er á, þá skal honum í hönd selja. Nú ef maður á fé að manni það er eigi vitu váttar, þá skal stefna honum heim til kvöðu og kveðja fjár þess er hann á að honum. Hinn skal annað tveggja festa fé eða synja. Einn skal eyris synja, en tveir tveggja, en þrír þriggja. En ef meira er, syni með séttareiði. En ef verjandi vil hvárki festa fé né í eið vinna, þá sannar hann sér skuld á hendur að fyrri sókn.

6. [Um ábyrgð á skuldum]

Nú er sá dauður er skuld á að gjalda en hinn lifir er heimta á, þá kemst hann eigi til skuldar nema með váttum því að engi skal eið vinna firi brjóst hins dauða. En erfingi skal þann eið vinna að eigi var sú skuld svá að eg vissi, þá vinnur hann firi sitt brjóst en eigi hins dauða. Nú stendur skuld tuttugu vetur eða lengur, þá fyrnist skuld firi váttum, en hann má koma honum til eiða ef hann vil, því að í salti liggur sök ef sækjendur duga.

7. [Um heimstefnu eða kauprein]

Nú kemur sá maður í herað er þú vil sóttan hafa um eitthvert mál og á engan erfingja í heraði og var eigi þar nóttina helgu, þá skal spyrja hann að heimili sínu, og ef hann nefnir heimili sitt, þá skal stefna honum þangað. Eigi skal hann segja að valdsmanns nema þar sé, en ef hann vil eigi nefna, þá skal skírskota undir vátta og stefna honum í hvern garð er hann vil, nema sér sjálfum, og sækja hann þar síðan. Þá er og hverjum manni rétt stefnt er á kaupreinu þar sem þeir keyptust við. Svá skal einhleypum manni stefna heim sem bónda þangað sem erfingi hans er innan heraðs, ellegar skal hann spyrja að heimili sínu. Þar skal vera sem hann segir innan hrepps, nema hann segi að valdsmanns.

8. [Um héraðssóknir]

Nú skulu heraðssóknir standa um alþingi og fimm nætur eftir og firi og um langaföstu. Kristindóm má jafnan sækja og ný verk þau sem verða. Ekki má að sóknum gera á helgum dögum nema stefna manni heim aðeins. Maður má stefna manni heimstefnu annars manns til sjálfs síns, ef honum er um boðið með váttum. Sjálfur skal hverr maður sína sókn sækja innanlands, frjáls maður og fulltíða, en ef hann hefir eigi kunnustu til eða menning, þá sæki konungs umboðsmaður honum til handa og öðlist þá sekt sem við liggur að lögum en ekki framarr. En ef maður ferr af landi brott, þá skal sá halda fé hans vetur þrjá er hann hefir um boðið með váttum og skal sá hafa sókn og vörn firi honum, en ef hann er lengur á brottu en þrjá vetur, þá skal sá hafa fé hans að halda er arfi er næstur og eyði ekki af. En ef hinn kemur aftur, lúki slíkt sem hann tók og váttar vitu. Svá skal kona sækja sem karlmaður ef hon er ein firi sér. En hon á kost að selja sókn sína og vörn þeim sem hon vil. Eigi skal hon selja valdsmanni né ofríkismanni þeim sem við hana á. Maður má sækja sókn hennar sem sína ef hon hefir honum um boðið með váttum. Nú vil maður sækja mann um eitthvert mál, en honum hafði annarr maður fyrr sókn á hendi, þá láti sá fyrr af er síðar tók til, því að eigi má hann tveim senn svör veita ef það er eigi til véla gört við hinn er hóf sóknina.

9. [Um fals]

Nú skulu kaup öll áhaldast þau sem handsöluð eru og váttar að og þeir menn kaupast við er kaupum sínum eigu að ráða, nema maður seli óheimilt eða sé fals í, þá skal kaup það aftur ganga, en hinn hafi andvirði sitt. Engi várr skal öðrum selja fals eða flærð, en sá er það gerir, þá er hann sekur sem hann hafi stolið svá miklu sem skynsamir menn sjá og meta að fals er í, nema því aðeins að hann vissi eigi falsið og hafi firi sér séttareið. En það er fals er skynsamir menn sjá er fals, er ef maður kaupir sand eða saur þar sem hann kveðst kaupa mjöl eða smjör og allt það er eigi má sjá á utan.

10. [Um kaupfox, ef maður selur það er áður er selt öðrum manni]

Nú skulu haldast handsöluð mál þau sem haldast megu að lögum. Það skal eigi haldast ef maður selur manni það er hann hefir áður öðrum selt. En ef sá hefir hönd að er síðar keypti, þá má hann halda skiladómi firi kaupi sínu. Nú á sá að hafa kaup er fyrri keypti ef honum fyllnast vitni að skiladómi, þá er þeim kaupfox er síðar keypti og skal hann því skírskota undir skilríka menn. Það er kaupfox ef maður kaupir það er hinn átti ekki í er seldi og heimta sitt af honum. En ef hann vil honum eigi í hönd selja, þá skal hann honum heim stefna og njóta vátta sinna að hann leit að lögum laust og krefja hann fjár síns og leggja honum rán við. Nú kaupir maður að útlægum manni, þá á konungur það fé er hann keypti af honum, en hann er sekur mörk, syni með lýritareiði að hann vissi eigi að hann var útlægur.

11. [Um ábyrgð á leigufénaði manna]

Nú selur maður kýr á leigu, þá skal sá kú að ábyrgjast að öllu er hefir, nema við því ef ofríkismenn taka og bráðasótt og kelfing og aldri. En ef deyr firi fátækum manni, þá gjaldi á þrim árum verðið eftir því sem skynsamir menn meta, því að engi skal kú leiga lengur en lifir nema hann drepi sjálfur. Nú skal hann kú hafa að leigumála réttum til fardaga að öðru vári því að þá skulu kýr á för vera nema þeir hafi annan eindaga ámælt sín á millum þá er hann tók kú. Nú er sú kýr dauð en hann átti veð í annarri, þá skal hann þá hafa firi sína kú, því að kýr skal í kýr stað koma, en ef sú lifir, þá skal hann sína kú hafa, þó að hon sé eldri, en ef lestir eru á orðnir, þó að hali slitni eða horn brotni, þá skal hann þá löstu bæta. Nú vil hann eigi leiga kú lengur, þá skal hann þann hitta er kú á ef hann er innan heraðs og bjóða honum kú sína með váttum. En ef hann er eigi innan heraðs, þá skal hann færa kú heim og leiða menn til og láta sjá kú að hon sé heil og hinum tæk er á. Þá segi hann af sína ábyrgð og varðveiti kú svá sem sín naut og þiggi af nyt og hafi það firi gras og gæslu og ábyrgist við handvömmum sínum einum. Nú er sá af landi farinn er kú átti og hefir manni boðið um hald fjár síns, þá á hann þeim kú að bjóða ef hann er innan heraðs, erfingja ef eigi er fjárhaldsmaður til, ef hann vil eigi lengur hafa leigt.

12. [Um fúlgufé og handvömm manna]

Nú felur maður búfé sitt inni að manni að fúlgumála réttum, þá skal hann ábyrgjast við handvömmum sínum öllum. Það eru handvömm hans ef hann sveltir eða drepur eða þeir menn er hann skal halda orði eða eiði firi. Það eru og handvömm hans ef haldsmaður hittir eigi fyrr en önd er úr eða fellur firi björg og fylgir eigi féhirðir, en ef hann sýnir áður en húð sé af flegin og fylgir, þá eru það eigi handvömm hans. Það eru handvömm hans ef drukknar í brunni og gætir engi maður eða kyrkir klafi, en ef hes er í bandi eða rennistaurr þá eru það eigi handvömm hans. Nú skal hann fæða til þess er úti má bjargast, þá hitti hann þann er á og bjóði honum að varðveita búfé sínu og sýni honum að fært sé að mat sér og segi af sína ábyrgð. En ef maður tekur hross á fúlgu eða á bit, það á hann að ábyrgjast við handvömmum sínum, en það eru allt handvömm hans er grannar hans virða til þess og vilja það með eiði sanna. Nú tekur maður naut á fóður, þá skal hann svá ábyrgjast sem fúlgunaut. Það skal maður eigi ábyrgjast að kýr fái eigi kálfs ef hann hefir griðung með nautum sínum.

13. [Um leynandi löst á grip]

Nú hefir maður kú mælta í skuld sína þá er hvárki skerði verð né leigu, þá skal sú eigi vera eldri en átta vetra og eigi yngri en að öðrum kálfi, heil og heilspenuð og hafi kelft of veturinn. Nú kaupir maður að manni hross eða búfé; þess er ábyrgð á er keypt hefir þegar á brott leiðir. Kvikfé allt er maður kaupir, þá skal engi öðrum svik selja né með leynandi löstum. Það er allt leynandi löstur á kvikfé er það drekkur sig sjálft. Sá skal sverja er seldi eða sjálfur hafa að hann vissi eigi leynandi löst á ef hinn finnur á fyrsta mánaði.

14. [Um ábyrgð á óséðum grip]

Nú kaupir maður grip ósénan að manni, þá er þess ábyrgð á er seldi þar til er þeim kemur í hendur er keypti eða þeim manni er hann bauð um fyri váttum að taka, nema þeir skili annan veg firi váttum.

15. [Ef tveir menn eða fleiri eiga einn grip saman]

Nú eigu tveir menn eða fleiri einn grip saman, þá selur einn og spyrr eigi hina að er með honum eigu. Nú vilja þeir rjúfa það kaup, þá skal hluta hverr ráða skal. Ef sá hlýtur er seldi, þá skal halda, en ef hinir hljóta er rjúfa vilja, þá skulu þeir rjúfa á fyrsta mánaði er þeir verða varir við en eigi síðarr.

16. [Um ábyrgð á láni og vitafé]

Sá skal lán ábyrgjast er þiggur að koma heilu heim. En ef hann vil það eigi, þá skal það sækja sem vitafé. En það er allt vitafé er váttar vitu. Nú lér maður eða selur það er honum er léð og misferr það, þá má hinn heimta af hvárum sem hann vil, þeim er seldi eða hinum er keypti, og svá hvervitna þar sem maður selur eða lér annars eign.

17. [Um veð í hlut]

Nú leggur maður veð manni firi einnhvern hlut, þá skal sá ábyrgjast veð er tekur, en ef þeir hafa görvan eindaga til nær út skal leysa, þá skal hann bjóða í eindaga og hafa vátta við, en ef þá leysir engi út, þá er það forveða vorðið. En ef maður á fé að heimta að öðrum manni og tekur hann veð fjár síns í einshverjum hlut, hvárt sem það er í jörðu eða annað fé, þá skal veð virða. Nú selur hann veð í brott öðrum manni, þá skal sá hafa vátta til veðs síns er veð átti á fyrstum tólf mánuðum ef hann er innan heraðs. En ef hann er utan heraðs, þá hafi hann brugðið á fyrstum tólf mánuðum er hann kemur í herað, ellegar á hann þess máls aldri uppreist. Nú selur maður tveim mönnum eitt veð, þá á sá veð er fyrri tók, en hinum er veðflærð er síðar tók og vitu það váttar.

18. [Um skuldskeytingar, ómagakaup og kvenna]

Nú heimtir maður skuld að manni ef hann er innan heraðs og skuldskeytir hann annan mann við hann, þá hefir hann lokið þeirri skuld af hendi sér ef þar eru váttar við að hann tók þann skuldarstað. Ómagi má engum kaupum ráða. Kona manns má og eigi meira ráða en eyris kaupi, nema hann sendi hana til skips eða í kaupstefnur að kaupa báðum þeim til þarfinda, þá skulu haldast kaup hennar ófölsuð, elligar skal hann rjúfa á fyrsta mánaði er hann veit og þikki honum ofkeypt.

19. [Um leigumenn]

Nú kaupir maður verk að frjálsum manni, þá skal það allt haldast er þeir verða ásáttir. En ef bóndi vil eigi halda mála við leigumann sinn og vísar honum úr vist, þá skal hann krefja með vátta vistar sinnar og bjóða verk sín slík sem þeir verða ásáttir. Nú ef bóndi vil eigi það, þá er hann sekur tólf aurum við konung, en hinn skal hafa kaup sitt og matarverð það er óneytt er. En ef leigumaður vil eigi, halda við bónda, þá skal hann krefja hann verka slíkra sem hann játaði honum og bjóða honum vist með váttum. En ef hann vil eigi, þá er hann sekur tólf aurum við konung, en bóndi á slíkt að heimta af honum sem hann skyldi reiða honum, en matarverð fær hann ekki, því að hann hafnar sjálfur. En ef hann tekur ákvæðisverk á hönd sér og getur eigi vunnið, þá skulu menn meta hvert leigufall honum skal í því vera. Nú leggst leigumaður sjúkur eða sár og liggur hann hálfan mánað, þá skal ekki leigufall í því vera, en ef hann liggur lengur, þá skal meta verkatjón og mat þann er hann neytir, ella fari á hendur frændum.

20. [Um skipun skips]

Nú skipar maður skip heima í heraði og ráða menn þar far af honum, þá skal hann svá skipa skip að þeir hafi allir far er tekið hafa. Nú ef skip verður ofmjög hlaðið, þá skal stýrimaður fyrst sína vöru af bera, en hinir hafi far er tóku, en ef þeim þikkir þá enn eigi fært, þá skulu þeir af bera er síðast tóku þar til er skip er fært. En stýrimaður gjaldi handsalslit sex aura hverjum er af gingur.

21. [Um veðfé]

Sitt veðfé á hverr er firi váttum er veðjað, sæki sem vitafé. Undir tafl eða tenning skal engi maður fé sitt leggja, en sá er teflður verður til eyris gjaldi konungi tólf aura, og svá sá er af honum teflir. Róa menn á menn eða sigla, gjaldi skaða þann allan er þeir gera nema menn rói firi barð þeim.