V. Flótti Elísu.

Það er ómögulegt að hugsa sér nokkra mannlega veru eins yfirgefna og einmana eins og Elísu, þegar hún lagði leið sína frá kofa Tómasar frænda. En sterkari en allar aðrar tilfinningar var móðurástin, sem nú lét til sin taka, þegar hættan vofði yfir. Drengurinn hennar var nógu gamall til þess að ganga við hlið hennar, og hefði öðruvísi verið ástatt, mundi hún einungis hafa leitt hann; en nú fór hrollur um hana við þá tilhugsun að sleppa honum úr höndum sér, og hún þrýsti honum fast upp að sér og hraðaði göngu sinni áfram.

Það marraði í hinni frosnu jörð undir fótum hennar, og hún hrökk saman við hljóðið. Sérhvert blaktandi laufblað og hjáliðandi skuggi knúði blóðið að hjarta hennar og flýtti för hennar. Með sjálfri sér undraðist hún yfir krapti þeim, sem virtist koma yfir hana, því henni fannst drengarinn ekki þyngri en fjöður, og sérhver hræðsla, er greip hana, virtist auka hinn yfirnáttúrlega styrk, sem knúði hana áfram; en hinar fölu varir hennar bærðust af bænarandvörpum til vinarins fyrir ofan: „Drottinn, hjálpaðu mér! drottinn, frelsaðu mig!“

Á meðan svaf barnið; litla höfuðið lá á öxlinni á henni, litlu, mjúku handleggirnir héldu sér öruggt utan um hálsinná henni. Fyrst hélt nýungin og hræðslan drengnum vakandi, en móðirin þaggaði niður sérhvert hið minnsta hljóð, og fullvissaði hann um, að ef hann einungis væri grafkýr, þá mundi hún gæta hans; hann hélt sér því rólegur utan um hálsinn á henni, en þegar hann fór að syfja, spurði hann: „Mamma, þarf ég að vera vakandi, þarf ég þess, mamma?“

„Nei, elsku barn, sofðu, ef þú vilt.“

„En ef ég sofna, mamma, þá læturðu hann ekki taka mig?“

„Nei, svo sannarlega hjálpi mér guð!“ sagði móðirin, og kinnar hennar urðu fölar og það brann bjartur eldur úr hinum dökku augum hennar.

„Ertu viss um það, ertu það, mamma?“

„Já, viss!“ sagði hún og hrökk við, er hún heyrði sinn eigin málróm, því henni virtist hann koma frá einhverri annari, ósýnilegri veru; og drengurinn lagði þreytta höfuðið sitt á öxl hennar og sofnaði skjótt.

Hversu mjög fannst henni þessir mjúku handleggir, er lögðust um háls hennar og hinn hægi andardráttur, sem lék um vanga hennar, leggja krapt og fjör í hreifingar sinar!

Landið umhverfis búgarðinn, tréplöntuteigarnir og skógurinn, allt þaut svimhratt fram hjá henni á flóttanum. Fram hjá einum kennistaðnum eptir annan hélt hún áfram viðstöðulaust og án þess að hægja á sér, unz hið rauðleita morgunsár hitti hana á opinni þjóðbraut margar mílur vegar frá öllum kunnugum stöðvum.

Hún hafði opt farið í kynnisför með húsmóður sinni til lítils þorps, sem lá ekki langt frá Ohio fljótinu, og hún þekkti veginn vel. Það fyrsta, sem hún í flýti hafði hugsað fyrir flótta sínum, var að komast þangað og þaðan yfir fljótið, þar fyrir utan gat hún að eins vonað til guðs.

Í litla böggulinn hafði hún látið nokkrar smákökur og fáein epli, og notaði hún þau til að flýta för þeirra á þann hátt, að hún lét epli velta spölkorn á undan þeim, og þaut þá drengurinn af öllum mætti á eptir, til að ná því ; og með þessu bragði, sem hún endurtók opt, komst hún yfir marga hálfa míluna. Eptir nokkra stund komu þau að þykkum kjarr-runni, tær lækur rann í gegn um hann. Af því barnið kvartaði um hungur og þorsta, klifraði hún yfir girðinguna með hann, og settist á bak við klett, sem skyggði á þau, svo þau gátu ekki sést neðan af veginum, og gaf hún honum þar morgunverð úr litla bögglinum sínum. Drengurinn furðaði sig á því og féll það illa, að hún vildi einskis neyta, og þegar hann tók um hálsinn á henni, til að reyna að troða dálitlu af brauði uppí hana, þá fannst henni eitthvað í hálsinum á sér, sem ætlaði að kæfa sig.

„Nei, nei, elsku Harry minn! mamma getur ekki borðað, fyr en þú ert óhultur, við verðum að halda áfram — áfram að fljótinu!“ og hún hraðaði för sinni enn meira. Um hádegisbilið nam hún staðar á snyrtilegum bóndabæ, til að kaupa miðdegisverð handa sér og barninu, og svo hélt hún aptur áfram.

Einni stundu fyrir sólsetur kom hún að þorpinu við fljótið, þreytt og sárfætt, en hugrökk í hjarta.

Fyrst af öllu leit hún á fljótið, sem lá eins og Jórdan á milli hennar og Kanaan frelsisins hinum megin. Það var snemma vors og fljótið var mjög vatnsmikið og ókyrrt, stórir ísjakar sveifluðust til á hinu skollita vatni. Elísa stóð um stund og horfði á fljótið, og leist eigi á blikuna; hún sá þegar í stað, að hinn venjulegi ferjubátur kom hér að engu haldi. Síðan gekk hún inn í lítið gestgjafahús, sem stóð nálægt árbakkanum, til að spyrjast fyrir.

Gestgjafakonan var að fást við matargjörð yfir eldinum, hún leit upp með gaffalinn í hendinni, þegar Elísa ávarpaði hana með hinni þýðu rödd sinni.

„Er engin ferja eða bátur, til að flytja fólk yfir um fljótið?“ spurði hún.

„Nei,“ sagði konan, „bátarnir urðu að hætta, en í kvöld kemur hingað maður, sem ætlar yfir um fljótið í nótt, ef það verður á nokkurn hátt fært. Svo það mun bezt fyrir þig að setjast niður og bíða; þetta er fallegur drengur“, bætti hún við og bauð Harry köku. En barnið, sem var alveg uppgefið, grét af þreytu.

„Veslings barnið! hann er svo óvanur að ganga, og við höfum gengið hratt,“ sagði Elísa.

„Jæja, farðu með hann inn í herbergið þarna,“ sagði konan, og opnaði dyr á litlu svefnherbergi, og stóð þar uppbúið rúm. — Elísa lagði þreytta drenginn sinn útaf í rúmið, og hélt í hönd hans, þar til er hann var steinsofnaður. Fyrir hana var engin hvíld. Það var sem eldur væri í beinum hennar, og hugsunin um, að sér yrði veitt eptirför, knúði hana áfram, og hún leit löngunarfullu augnaráði á hið sollna, ólgandi fljót, sem lá á milli hennar og frelsisins.