V
Tómas frændi
Höfundur: Harriet Beecher Stowe
Þýðing: Guðrún Lárusdóttir
VII


VI. Örvæntingarhlaup.

Þrælakaupmaðurinn, sein hafði keypt drenginn hennar, nálgaðist óðum.

Þegar er flótti Elísu var uppvís orðinn, bjóst Haley til að veita henni eptirför. En hann komst ekki eins fljótt af stað, eins og hann vildi. Svertingjarnir, Sámur og Andri, sem höfðu fengið skipun um að veita Haley hjálp, sáu að húsmóðir þeirra hirti ekki um, að Elísu yrði náð; þeir komu því þá til leiðar, að hestur Haleys fældist, og Haley datt af baki; sömuleiðis slepptu þeir sínum hestum, og gekk allur morguninn í að ná þeim aptur. Það var því ekki fyr en eptir hádegi, að þeir hófu ferð sína.

Áður en þeir höfðu lengi riðið, komu þeir þar sem tveir vegir mættust. Báðir höfðu þeir einu sinni legið að fljótinu, en nú var búið að girða fyrir annan veginn. Sámur vissi þetta og sagði Haley það, en á þann hátt, að Haley trúði honum ekki. Eptir einnar stundar reið komu þeir að endanum á veginum, en þá urðu þeir að snúa aptur sömu leið. Það var komið kvöld, þegar þeir komu í þorpið, þar sem Elísa var að hvíla sig með barnið.

Hérumbil þrem fjórðu hlutum stundar eptir að Elísa hafði lagt drenginn til svefns, komu ofsækjendur hennar ríðandi til þorpsins. — Elísa stóð við gluggann, þegar hið aðgætna auga hennar sá þeim bregða fyrir. Var nú það fram komið, er hún hafði óttazt. Elísu fannst sem þúsund líf lægju í þessu eina augnabliki. Hliðardyr lágu úr herberginu, sem vissu út að ánni. Hún þreifbarn sitt og hljóp niður tröppumar á leið til árinnar. Haley kom auga á hana, einmitt þegar hún var að hverfa niður á árbakkann, og hann þaut af hestinum og stökk á eptir henni, eins og hundur á eptir hind.

Á þessu hræðilega augnabliki virtust fætur hennar naumast koma við jörðina, og eptir fáar sekúndur var hún komin að vatninu. Rétt á eptir henni var ofsækjandi hennar. — Vopnuð með styrk þeim, sem guð gefur einungis hinum örvæntingarfulla, hljóp hún með tryltu ópi og flughröðu stökki beint yfir hinn gruggaða straumál með fram bakkanum, út á íshroðann, sem var í ánni.

Það var örvæntingarhlaup — ómögulegt sérhverjum, nema hinum örvæntingarfulla og æðisgengna; jafnvel þrælakaupmaðurinn, sem kominn var niður að ánni, hrópaði ósjálfrátt upp yfir sig og fórnaði upp höndunum, þegar hún stökk út á ísinn.

Hinn stóri, græni ísjaki, sem hún kom niður á, dýfði sér brakandi undan þunga hennar, en hún staðnæmdist ekki eitt augnablik. Með æðisgengnu ópi og örvæntingar krapti stökk hún á annan jaka, og á enn annan — hrasandi, hlaupandi, skriðnandi, stökkvandi upp aptur.

Skórnir hennar voru farnir, sokkarnir flettir af fótum hennar, sérhvert fótspor hennar var blóði drifið; en hún sá ekkert og fann ekkert, unz hún vissi til þess óljóst, eins og í draumi, að hún var komin yfir um, og maður nokkur var að hjálpa henni upp árbakkann.

„Þú ert dugandi stúlka, hver sem þú ert“, sagði maðurinn. — Elísa þekkti manninn, hann átti bújörð, ekki langt frá hennar gamla heimili.

„Ó, frelsið þér mig, frelsið þér mig, komið þér mér undan!“ sagði Elísa. „Barnið mitt, drengurinn sá arna, hann seldi hann! þarna er eigandi hans“, og hún benti á Kentucky-ströndina. „Ó, Þér eigið líka lítinn dreng“.

„Það á eg“, sagði maðurinn, og hjálpaði henni upp hinn bratta árbakka.

„Eg segi að þú sért dugleg stúlka; mér líkar áræðið, þar sem eg sé það“.

Þegar þau voru komin upp á árbakkann, nam hann staðar. „Eg hefði gjarnan viljað gjöra eitthvað fyrir þig“, sagði hann, „en það er enginn staður, sem eg gæti farið með þig á; það bezta, sem eg get ráðlagt þér er að fara þangað“, og hann benti á hvítt hús, sem stóð eitt sér út frá aðal stræti þorpsins. Farðu þangað, þar er gott fólk, það er engin hætta, sem þau eigi geti hjálpað þér úr — þau eru vön þessu og þvíumlíku“.

„Drottinn blessi yður“. sagði Elísa alvarleg. „Ó, þér segið það engum!“

„Haltu áfram stúlka mín! hvern mann heldurðu mig? Auðvitað ekki“. sagði maðurinn. „Haltu nú áfram, eins og dugleg og skynsöm stúlka, eins og þú ert; þú hefur unnið þér frelsi, og eg skal ekki svipta þig því!“ Konan þrýsti barni sínu að brjósti sér og gekk hratt burtu. Maðurinn stóð og horfði á eptir henni.

Elísa hljóp örvæntingarhlaup sitt yfir fljótið einmitt í rökkrinu; hin gráa þoka, er hóf sig hægt upp úr fljótinu, sveipaðist umhverfis hana, er hún hvarf upp á bakkann, og hið þrungna vatnsfall með hinum veltandi ísjökum, myndaði vonlausa ófæru á milli hennar og ofsóknara hennar. Haley sneri því harðla óánægður til gestgjafa hússins, til þess að hugsa um hvað gjöra skyldi.