X. Jón Trompe.

Það var liðið á nóttu, þegar vagninn nam staðar frammi fyrir dyrunum á stórum og reisulegum bóndabæ. Það var ekki svo lítil fyrirhöfn að vekja fólkið upp, en loks kom hávaxinn og karlmannlegur maður fram í dyrnar. Það var hinn virðulegi, aldurhnigni Jón Trompe, sem einu sinni var auðugur land- og þrælaeigandi.

Hann var heiðursmaður, ráðvandur, réttvís og hjartagóður; í mörg ár hafði hann verið sjónarvottur að hinni grimmilegu meðferð, er þrælarnir urðu að sæta; og þar kom, að hann gat ekki þolað það lengur; og einn góðan veðurdag tók hann að lokum kampunginn sinn og ferðaðist til eins af ríkjunum þar sem ekki var þrælahald, Ohio, og keypti þar stórt land og gott. Að því búnu gaf hann öllum þrælum sínum frelsi, og flutti þá alla, karlmenn, konur og börn, á vögnum sínum á nýju landareignina, og fékk þeim þar bústaði.

„Ert þú sá maður, að þú viljir varðveita umkomulausa konu og barn fyrir þræla-ofsækjendum?“

„Það vil ég ætla, að ég sé,“ sagði hinn virðulegi Jón með töluverðri áherzlu.

„Það hugsaði ég líka,“ sagði ráðherrann.

„Komi einhverjir," sagði Trompe, og rétti úr hinum sterkbyggða líkama sínum, „þá er ég reiðubúinn til að taka á móti þeim; og eg á sjö syni, hver þeirra er 6 fet á hæð, og þeir munu sömuleiðis verða reiðubúnir að veita slíkum gestum móttöku. Heilsaðu þeim frá okkur, og segðu þeim, að þeir megi koma á hvaða stundu, sein þeir vilji, okkur stendur alveg á sama!“ Og hann strauk hendinni eptir höfði sér og rak upp hlátur mikinn.

Uppgefin og dauðþreytt, bæði á sál og líkama, dróst Elísa niður úr vagninum með barn sitt sofandi í fanginu.

Maðurinn brá ljósinu upp að andlitinu á henni og sagði eitthvert meðaumkunarorð, opnaði síðan dyr á litlu hliðarherbergi, og bað hana inn að ganga; hann kveikti ljós, setti það á borðið, og sneri sér svo að Elísu. „Vertu öldungis óhrædd, stúlka mín; komi hingað hver, sem koma vill, eg er við öllu búinn,“ sagði hann og benti á þrjár öflugar byssur á arinhyllunni, „og flestir, sem þekkja mig, vita líka að það er ekkert hollt að reyna til að ná fólki burt úr mínum húsum, þegar eg vil það ekki; farðu nú að sofa, alveg eins róleg, eins og hún móðir þín væri að svæfa þig.“ Svo fór hann út og lokaði hurðinni á eptir sér.

Bird sagði nú sögu Elísu í fám orðum. Jón hlýddi á frásögu hans með hinni mestu eptirtekt og hluttekningu.

„Þú ættir að bíða hér til þess er birtir,“ sagði hann við Bird. „Eg skal vekja gömlu konuna, og biðja hana um að hafa rúm til reiðu handa þér, það tekur engan tíma.“

„Eg þakka þér, góði vin, en heim verð eg að komast aptur í nótt.“

„Jæja, fyrst þér liggur svona mikið á, þá skal eg fylgja þér á veg, sem er miklu fljótfarnari, en sá sem þú komst; sá vegur er mjög slæmur.“

Jón tók klæði sín í flýti, og fylgdi Bird á veg, sem lá á bak við hóla, er skygðu á bústað hans. Þegar þeir kvöddust, stakk Bird 10 dollara seðli í hönd honum.

„Það er handa henni,“ sagði hann í snatri. „Já, já,“ sagði Jón.

Þeir tókust í hendur, og hvor fór sína leið.