X
Tómas frændi
Höfundur: Harriet Beecher Stowe
Þýðing: Guðrún Lárusdóttir
XII


XI. Endurfundir og frelsi.

Frá heimili Jóns Trompe var Elísa flutt í lítið kvekara þorp, þar sem stroku-þrælum opt hafði verið haldið leyndum. Hún var búin að vera þar um tíma, þegar húsmóðirin í húsi því, sem henni hafði verið veitt móttaka í, kom einhverju sinni að máli við hana.

„Ertu enn þá að hugsa um að fara til Canada, Elísa?“ sagði hún.

„Já,“ sagði Elísa, „eg hlýt að halda áfram; eg þori ekki að nema staðar.“

„Og hvað tekurðu til bragðs, þegar þar er komið? Um það verðurðu að hugsa, dóttir mín.“

„Dóttir mín,“ var ávarp, er var mjög svo náttúrlegt á vörum Rakelar Halliday, því andlit hennar og viðmót var mjög svo „móðurlegt.“

Höndin á Elísu titraði, og nokkur tár hrundu niður á verkið, sem hún var með, en hún svaraði einbeitt: „Eg ætla að vinna — hvaða vinnu, sem eg get fengið — eg vona að eg fái eitthvað að gjöra.“

„Þú veizt að þið megið vera hér eins lengi og þú vilt,“ sagði Rakel.

„Ó, eg þakka yður fyrir,“ sagði Elísa, „en,“ hún benti á Harry, „eg get ekki sofið á nóttunni, eg nýt engrar hvíldar. Í nótt sem leið dreymdi mig að þessi maður, sem keypti hann, kom hérna inn í garðinn.“ Og það fór hrollur um hana.

„Veslings barn,“ sagði Rakel og þurkaði sér um augun, „en þú ættir ekki að vera svona kvíðafull; drottinn hefur hagað því svo allt til þessa dags, að enginn flóttamaður hefur náðst í þorpi voru, og ég treysti því að þú verðir ekki hin fyrsta.“

Þegar þær voru að talast við, kom Símon Halliday inn í herbergið; hann var hár vexti, beinvaxinn og burðalegur maður; hann var í grófgjörðri léreptstreyju með barðastóran hatt á höfði.

„Er ekkert að frétta?“ spurði Rakel.

„Pétur Stebbins sagði mér, að þeir mundu koma hér í kvöld með vini“ sagði Simon; og var sem eitthvað þýðingarmikið byggi undir.

„Einmitt það,“ sagði Rakel og varð litið til Elísu.

„Sagðirðu að þú hétir Elísa Harris?“ spurði Símon.

Rakel leit á mann sinn, en Elísa svaraði titrandi: „Já!“ Hræðsla hennar var ætíð efst á teningnum, og hugsaði hún nú að það hefði verið auglýst eptir sér.

„Rakel,“ sagði Símon við konu sína, og leiddi hana fram í fordyrið, „maðurinn hennar Elísu er kominn hingað í þorpið, og kemur til okkar í kvöld.“

„Ó, er það satt?“ sagði Rakel og andlit hennar ljómaði af gleði.

„Það er alveg satt og áreiðanlegt. Pétur fór í gær niður í nýlendu, þar hitti hann aldraða konu og tvo karlmenn, og kvaðst annar heita Georg Harris. Eg er viss um að það er satt. Nú skulum við segja henni það.“

Rakel gekk fram í eldhúsið, þar sem Elísa sat við sauma sína. Hún opnaði dyr á litlu svefnherbergi við hliðina og sagði góðlátlega: „Komdu hérna inn með mér, dóttir góð, ég hef fréttir að færa þér.“

Blóðið þaut fram í hið föla andlit Elísu; hún skalf af angist, og leit á Harry um leið og hún stóð upp.

„Nei, nei,“ sagði Rut (vinstúlka, sem komin var) og hljóp til Elísu og tók í hönd hennar, „vertu óhrædd, það eru góðar fréttir, farðu inn! farðu inn!“ og hún ýtti henni hægt að dyrunum, sem lukust á eftir henni; Rut snéri sér þá við, tók Harry litla í fang sér og sagði: „Nú sérðu hann pabba þinn bráðum, litli vinur minn. Veiztu það ekki? hann pabbi þinn kemur,“ sagði hún aptur og aptur, þegar drengurinn leit undrandi á hana.

Inni í herberginu töluðust þær við, Rakel og Elísa.

Rakel gekk að Elísu og sagði: „Drottinn hefur miskunað sig yfir þig, maðurinn þinn er sloppinn úr þrældóms húsinu."

Blóðið þaut með hraða fram í kinnar Elísu, og eins fljótt aptur til hjarta hennar. Hún settist niður föl og titrandi.

„Vertu hughraust, barn mitt;“ sagði Rakel, og klappaði á höfuð hennar, „hann er á meðal vina, sem ætla að koma hingað með hann í kvöld“.

„Í kvöld!“ sagði Elísa, „í kvöld!“ Henni var þetta ekki ljóst, hún var eins og í draumi, og á næsta augnabliki vissi hún ekki af sér. Þegar hún rankaði við sér aptur, var búið að bera hana í rúm. Hún sofnaði nú vært, svo væran hafði hún aldrei sofið síðan nóttina hræðilegu, þegar hún flýði með barnið sitt.

Hana dreymdi fagurt land, — land með hvíld og friði, með iðgrænum ströndum og fögrum, glitrandi vötnum. Þarna var hús, henni var sagt að það væri heimilið hennar, og þar sá hún drenginn sinn, hann var að leika sér, frjáls og glaður. Hún heyrði fótatak mannsins síns; hann kom nær, faðmaði hana upp að sér, og tár hans lauguðu andlit hennar, og hún vaknaði. Það var enginn draumur! Dagurinn var löngu liðinn; drengurinn hennar svaf vært við hlið hennar, á borðinu logaði kertaljós, og við rúmstokkinn sat maðurinn hennar og grét, grét fagnaðar og þakklætis tárum.

Vér höfum eigi ráðrúm til að lýsa öllu því, er kom fyrir þau Georg og Elísu á leið þeirra til Canada, það yrði oflangt mál. Á einum stað náðu ofsækjendur þeirra þeim, og Georg varð að verja hendur sínar og berjast, en með hjálp vina þeirra, sem með þeira voru, komust þau óhult lengra áleiðis. Þau fóru úr einum felustaðnum í annan, unz þau að lokum komust að Erie vatninu; þar stigu þau á skip, til þess að fara yfir um til Kanada.

Það var dýrðlegur dagur. Hinar bláu öldur Erie vatnsins léku bjartar og glitrandi í sólskininu. Hressandi gola blés af ströndinni, og hið fagra skip klauf öldumar tignarlega.

Hvílíkur heimur af hugsunum getur búið í mannlegu hjarta! Hverjum hefði getað komið til hugar allt það, er brann í sálardjúpi Georgs þar sem hann gekk rólegur um þilfarið á skipinu og við hlið hans hinn hræddi förunautur hans? Hin mikla hamingja, sem nálgaðist, virtist of mikil, of björt; og hann óttaðist hverja stund dagsins, að einhver kynni að koma og svipta hann henni.

En tíminn leið, og áfram þaut skipið, og að síðustu blasti við, björt og vegleg, blessuð enska ströndin — strönd, sem hefur til að bera þann töfrakrapt, er losar um böndin og brýtur þrældómsokið, hvaða þjóð sem það hefur á lagt.

Georg og kona hans stóðu hvort við annars hlið og héldust í hendur, er skipið nálgaðist smáþorpið Amherstberg í Canada. Hann dró andann ótt og títt, og honum sortnaði fyrir augum; hann þrýsti þegjandi litlu höndina, sem lá titrandi á handlegg hans. Skipslúðurinn kvað við, — skipið nam staðar. Georg sá varla handa sinna skil, er hann tók saman farangur sinn og gekk á land ásamt með konu sinni og barni. Þau stóðu kyr, þar til er skipið lagði frá aptur. — Þá féllu þau á kné með hið undrandi barn sitt á örmum sér, og lyptu þakklátum hjörtum sínum til drottins.

Þau voru frjáls!