XIII. Evangelina.

Í fyrstu hafði Haley nákvæmar gætur á Tómasi á daginn, og á nóttunni varð hann að sofa fjötraður; en með stillingu sinni og hógværð ávann Tómas sér trúnaðartraust jafnvel hjá öðrum eins manni og Haley var. Tómas tékk því leyfi til að ganga ófjötraður um skipið, hvar og hvenær sem hana vildi. Á meðal farþegja skipsins var maður einn ungur og vel efnum búinn, er var búsettur í New Orleans, maður þessi hét Águstinus St. Clare. Með honum var dóttir hans, lítil stúlka, fimm eða sex ára að aldri, ásamt konu nokkurri, sem var í ætt við þau, og sem virtist sérstaklega hafa yfir-umsjón með barninu. Tómas hafði opt séð þessari litlu stúlka bregða fyrir; hún var sí og æ á fleygiferð fram og aptur um skipið; hún gat engu fremur haldið kyrru fyrir, heldur en sólargeislinn eða sumarblærinn.

Tómas gaf litlu ungfrúnni nákvæmar gætur, áður en nokkur kunningsskapur hófst milli þeirra. Hann var leikinn í að búa ýmislegt smávegis til, sem smáfólkinu þykir mjög mikið í varið, og nú hugsaði hann sér að nota þessa kunnáttu sína. Hann gat búið til smákarfir úr kirsiberjasteinum og hann kunni að skera alls konar skringilegar myndir í hnotuskeljar, hann gat smíðað allavega leikföng úr ýmsu efni og með ýmsu lagi.

Það var nú samt sem áður enginn hægðarleikur að handsama litlu stúlkuna; hún stóð ekki lengi við í einu á hverjum staðnum.

„Hvað heitir litla ungfrúin?“ spurði Tómas einn dag; honum þótti þá bera vel í veiði að spyrja að heiti hennar.

„Evangelina St. Clare,“ sagði litla stúlkan, „en pabbi og allir kalla mig nú reyndar Evu; en hvað heitir þú?

„Ég heiti nú Tómas; litlu börnin heima í Kentucky voru vön að kalla mig Tómas frænda.“

„Þá ætla ég líka að kalla þig Tómas frænda, af því mér fellur þú svo vel í geð,“ sagði Eva. „Jæja þá, Tómas frændi, hvert ertu að fara.“

„Ég veit það ekki, ungfrú Eva.“

„Veiztu það ekki?“ sagði Eva.

„Nei, það á að selja mig einhverjum, ég veit ekkert hverjum.“

„Pabbi minn getur keypt þig,“ sagði Eva fljótlega, „og ef hann kaupir þig, þá skaltu eiga gott; ég ætla að biðja hann um það strax í dag.“

„Ég þakka þér fyrir, litla ungfrú mín,“ sagði Tómas.

Í þessu bili nam skipið staðar við bryggju eina, til þess að taka timbur; Eva heyrði að faðir hennar kallaði á hana, og hljóp hún til hans og gekk um þilfarið við hlið hans. Tómas stóð upp og gekk fram á skipið, til þess að hjálpa til með að ná viðnum út á skipið.

Eva og faðir hennar stóðu við borðstokkinn og horfðu á þegar skipinu var lagt frá landi. Skrúfa skipsins var tekin að hreifast; óðar en varði tók skipið snöggan kipp, Eva missti jafnvægið og féll á bak aptur niður í vatnið við hliðina á skipinu. Faðir hennar, sem naumast vissi hvað hann gjörði, ætlaði að fleygja sér í vatnið á eptir henni, en maður nokkur, sem stóð nálægt honum, kom í veg fyrir það; hann sá, að barninu hafði borizt betri hjálp.

Tómas hafði staðið á neðra þilfarinu, neðan undir þar sem Eva og faðir hennar höfðu staðið, þegar hún féll í vatnið. Hann sá að hún sökk og á sama vetfangi fleygði hann sér í vatnið, á eptir henni. Það var hægðarleikur fyrir hann, sem var bæði stór og sterkur, að halda sér uppi í vatninu til þess er henni skaut upp á yfirborð vatnsins eptir fá augnablik; hann tók hana í fang sér og svam með hana að skipshliðinni, þar voru óteljandi hendur á lopti að taka á móti henni, rétt eins og hún hefði heyrt þeim öllum til. Á næsta augnabliki hvíldi hún í faðmi föður síns, sem bar hana rennvota og meðvitundarlausa niður í skipið. Hún kom bráðum til sjálfrar sín aptur, en skipið hélt leiðar sinnar eptir fljótinu.

Það var steikjandi sólskinshiti næsta dag, er skipið nálgaðist New Orleans. „Ó, pabbi minn, kauptu hann Tómas frænda,“ hvíslaði Eva ofurhægt í eyrað á föður sínum, og vafði handleggjunum um hálsinn á honum. „Þú átt nóga peninga, ég veit það vel. Ég þarf á honum að halda.“

„Til hvers, vina mín?“ sagði faðir hennar, „ertu að hugsa um að hafa hann til að bera þig á háhesti, eða hvað?“

„Ég þarf að láta hann eiga gott,“ sagði litla stúlkan.

„Það er vissulega einkennileg ástæða,“ sagði faðir hennar.

St. Clare, sein var mjög þakklátur fyrir björgun barns síns hafði þegar samið við þrælakaupmanninn um að kaupa Tómas. Hann fór að finna Haley og afhenda honum andvirði Tómasar.

„Gott“ sagði Haley, sem var hæst-ánægður yfir viðskiptum þessum; hann tók upp afgamla leðurblekbyttu, ritaði kvittun fyrir borguninni og fékk St. Clare.

„Komdu nú Eva,“ sagði faðir hennar og tók í hönd dóttur sinnar; þau gengu þangað sem Tómas sat, hinum megin á þilfarinu. „Stattu upp Tómas,“ sagði hann vingjarnlega og sjáðu hvernig þér lízt á nýja húsbóndann þinn.“

Tómas leit upp, „Guð blessi yður, húsbóndi minn,“ sagði hann með tárin í augunum.

„Það vona ég hann gjöri,“ sagði St. Clare. „Segðu mér nú, hvað þú kannt að vinna. Kanntu að stýra vagni?“

„Ég hefi jafnan fengizt við þann starfa,“ sagði Tómas.

„Þá held ég að ég megi gjöra þig að vagnstjóra mínum, en með því skilyrði einungis að þú verðir ekki drukkinn nema einu sinni í viku.“

Það leit út fyrir að Tómas yrði forviða og að honum þætti fyrir. „Ég drekk aldrei vín, húsbóndi minn.“

„Þetta hef ég nú heyrt áður, Tómas, en við skulum nú sjá til. Sleppum þessu,“ sagði hann og brosti, er hann sá að Tómas var ekki sem ánægðastur á svipinn, „ég efast ekki um að þú villt reynast vel.“

„Og þú skalt eiga gott,“ sagði Eva; „pabbi er góður við alla, hann hefur bara gaman af að spauga við fólk.“

„Pabbi þakkar þér fyrir meðmælin,“ sagði St. Clare hlæjandi, snéri sér á hæli og fór.