Tómas frændi/XII
XII. Tómas frændi er fluttur burt.
Það var dapurt og drungalegt í kofanum hans Tómasar frænda árla morguns í Febrúarmánuði. Börnin sváfu öll í óbrotnu rúmunum sínum.
Tómas stóð á fætur, gekk að rúmum þeirra og horfði á þau.
„Það er í síðasta sinn,“ sagði hann,
Konan hans, Klóa frænka, svaraði ekki. Hún hélt áfram verki sínu, að slétta grófu skyrtuna, og þegar hún var búin setti hún járnið þunglamalega frá sér, settist niður við borðið, tók höndum fyrir andlit sér og grét.
„Mundu það, að ég er á guðs valdi,“ sagði Tómas. „Ekkert getur farið öðruvísi en hann vill. Og eitt er það, sem mér ber að þakka guði, og það er að ég var seldur en ekki þú eða börnin. Þið eruð óhult hér; það sem fyrir kann að koma mætir einungis mér, og ég veit að drottinn hjálpar mér.“
Ó, þú hugumprúða, drenglundaða hjarta, sem dylur eigin sorgir til að hughreysta þína ástkæru! Tómas talaði í hásum róm, og það var eins og eitthvað tæki fyrir kverkar honum, en hann talaði ókvíðinn og örugglega.
Í þessu bili kom frú Shelby inn. Hún var fölleit og kvíðafull á svip.
„Tómas", sagði hún, „ég kom til —“ henni varð litið á hinn þögula hóp, og hún settist niður á stól og byrgði andlitið í höndum sér.
„Ekki núna, frú, ekki núna, ekki núna!“ sagði Klóa frænka og grét nú hástöfum, og í nokkur augnablik grétu þau öll.
„Kæri Tómas minn!“ sagði frúin, „ég get ekkert gefið þér, sem þú hefur gagn af; þó ég gæfi þér peninga, þá yrðu þeir teknir af þér. En því lofa ég þér hátíðlega, frammi fyrir augliti drottins, að eg skal halda spurnum fyrir þér og kaupa þig aptur, strax þegar ég eignast peninga til þess; treystu guði þangað til.“
Drengirnir hrópuðu nú upp yfir sig að Haley kæmi. Dyrunum var hrundið upp og Haley var þar kominn í mjög illu skapi, hann hafði verið á reið alla nóttina, og ekki bætti það um, hve hraparlega honum hafði mistekizt að ná í Elísu.
„Komdu,“ sagði hann, „ertu tilbúinn?“ „Yðar þjónn, frú!“ sagði hann og tók ofan, þegar hann kom auga á frú Shelby.
Tómas stóð auðmjúkur upp, til að fylgja hinum nýja húsbónda sínum, og lypti þungu kistunni sinni á herðar sér.
Kona hans tók yngsta barnið á handlegg sér, til að fylgja honum út að vagninum, og hin börnin fylgdu öll grátandi á eptir.
Hópur af ungum og gömlum hafði safnazt utan um vagninn, allir voru komnir til að kveðja Tómas; allir höfðu virt hann og þótt svo vænt um hann, og nú var sorgarsvipur á hverju einasta andliti.
„Farðu upp í vagninn, sagði Haley við Tómas um leið og hann gekk snúðugt fram hjá svertingjahópnum. Tómas hlýddi á augabragði.
Haley keyrði hestana áfram, og Tómas horfði með hryggð og trega á gamla heimilið sitt, um leið og ekið var brott.
Þrælakaupmaðurinn fór með Tómas og nokkra aðra þræla, sem hann hafði keypt, út á eimskip á Ohio-fljótinu, sem ætlaði til New-Orleans eptir Missisippi fljótinu.