Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Ýmislegt af Einari og niðjum hans

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Ýmislegt af Einari og niðjum hans

Einar prestur andaðist, að því er ritar Eyjólfur prestur hinn fróði á Völlum í Svarfaðardal, árið 1699. Einar prestur var íþróttamaður, en mest er á orði haft um útsaum hans með yfirburðum; er honum eignað altarisklæðið í Reykjahlíð er með hinni mestu hannyrð er kallað.

Mörg voru systkin Einars prests er fólk er frá komið. En þessir eru taldir synir hans:

1. Galdra-Þórarinn – og er það frá honum sagt að þrjú dægur lægi hann upp á háfjalli aftur á bak gapandi með líknarbelg í munni allt til þess loftandi flygi í munn honum og fengi hann höndlað hann því enginn andi orki úr líknarbelg að komast; þó telja sumir að sagnaranda verði að taka í belg af frumsafrumsa kálfi.[1] Er því talið að Þórarni kæmi ekkert óvart, en öngum gjörði hann mein.

2. var Runólfur Einarsson í Hafrafellstungu hjá Skinnastöðum.

3. Þorvaldur í Axarfirði.

4. Eirekur í Skógum í Axarfirði.

5. Jón prestur greipaglennir fékk Skinnastaði eftir föður sinn, dó 1737, átti fyrri Elínu Jónsdóttur er dó í Stórubólu (1707). Þeirra son var Einar prestur á Skinnastöðum. Síðan átti Jón prestur Steinvöru Aradóttur. Voru þeirra börn: 1. Elín átti Magnús Jónsson í Strandhöfn. 2. Helga. 3. Gull-Gunna (Guðrún) átti Pétur Arnsteð Pétursson; var þeirra son Kristján snikkari í Reykjavík er drukknaði. 4. Ari, kallaður Galdra-Ari, átti Ingibjörgu Illugadóttur Halldórssonar. Son þeirra hét Illugi er Ari kallaði Litla-Skelmir af gamni. Stefán prófastur í Presthólum Þorleifsson, stiftprófasts Skaftasonar Jósefssonar, heyrði það sagt hvað Ari kallaði Illuga son sinn, og kvað þá:

Ekki er á öðru von
eftir þanka mínum
en Skelmir verði Skelmisson
í skikki og verkum sínum.

Ari heyrði stöku Stefáns prófasts og kvað aftur þetta:

Þó kolli þínum kingsir þú sem kjóa maki,
kjóll og vesti frá þér flaki
fékkstu snert af kviðataki.

Og enn:

Hafi hún Gimbla goldið þess hún gaut svo snemma,
í gólfi veit ég hulda hlemma,
ég hirði þig ei meira að klemma.
Fjórir báru hana heim þó hafni ljósi
neðan úr Hóla nautafjósi,
nýttú kvæðið bögubósi.

Þórdís systir Þórunnar, konu Stefáns prófasts, átti barn; var það Árni prófastur á Kirkjubæ er Stefán prófastur ól upp og kom til menningar og vissu menn hann föður að honum, en kenndur var hann húskarli þeim er Þorsteinn hét. Efrihólar heitir kot fyrir ofan Presthóla. Árni prófastur var faðir Sigfúsar prests skálds er drukknaði í Lagarfljóti.

  1. Frumsa-kálfur (eða kvíga, sbr. Jón prestur gamli á Þæfusteini) ætla ég muni vera fyrsti kálfur, frumkálfur (sbr. frum og frums hjá Birni Halldórssyni) kvígu; en væri hér ekki öðru frumsa ofaukið í frumsafrumsa kálfur, kynni að mega geta sér til að það væri frumkálfur bæði kvígunnar og graðneytisins (sbr. frumsafrum hjá Birni Halldórssyni). Frumsa heitir annars ketflikki það sem er framan í enni á nýköstuðu folaldi og er sagt að merin gleypi það undireins og hún hefur kastað. Folaldsfrumsa þótti að fornu fari eitthvert ágætasta töframeðal til ásta hér á landi, allt eins og hjá Rómverjum.