Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Særingar og bænir
Særingar og bænir
Auk rúnastafanna, galdrastafanna og formálanna sem nú voru taldir höfðu fyrri alda menn mikla trú á særingum sem svo voru nefndar og þuldu þær og lásu sér til varnar bæði fyrir árásum djöfulsins og illra anda, galdri alls konar og sendingum, vofum og vondum mönnum, reiði og þjófnaði og þar fram eftir götunum. En engar þeirra hef ég séð sem stílaðar hafi verið öðrum til meins eða móðs að fyrra bragði. Særingar þessar voru síður en ekki álitnar galdrar, heldur miklu fremur öflug vörn við galdri og þótti þeim fylgja yfirnáttúrlegur og æðri verndarkraftur enda er víða í þeim heitið á persónur guðdómsins til fulltingis með öruggu trausti, jafnvel innan um sárbeittustu fáryrðin og forbænirnar. Særingarnar kallast ýmist bænir – og margar þeirra eru nefndar „Brynjubænir“ – eða stefnur án þess gjörður verði greinarmunur á bæn og stefnu því hvortveggja eru særingar. Flestar særingar held ég hafi verið annaðhvort eingöngu í ljóðum eða bæði í ljóðum og lausu máli, en færri í lausu máli einungis. Til sýnis og sönnunar máli mínu set ég hér á eftir nokkrar særingabænir og stefnur.
- Bæn
- Brynjubæn í ljóðum (brot)
- Önnur Brynjubæn (Særing móti illum öndum)
- Brynjubæn Sæmundar fróða (í nauðum, bágindum og háskasemdum)
- Stefna Sæmundar fróða
- Stefna
- Vísur til að herða stefnu og fæla með djöfulinn
- Þjófastefna
- Til að vita stuld
- Bræðurnir og blaðið
- Ein góð bæn
- Skipsformáli
- Skráarvísur
- Þula við að loka dyrum
- Að stemma blóð les þetta