Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Sagnir frá seinni öldum

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Sagnir frá seinni öldum
Þjóðsagnasafn sem kom út í Leipzig 1862-1864.

Það eru ekki aðeins til sagnir um fornöldina, heldur jafnvel enn stærri og fjölkynjaðri frá seinni öldum, og lítur það svo út sem munnmælin hafi öllu heldur gert sér hina seinni viðburði að yrkisefni en hina fyrri en þótt þeir eigi ekki nándar nærri að styðjast við jafnmerk og ágæt sagnarit – eða að minnsta kosti ekki eins alkunn – og fornaldarritin eru nú orðin. Stundum hafa vísur og ljóðmæli sem ort hafa verið um viðburðina sjálfa viðhaldið minningu þeirra allt eins og vísurnar í fornöld voru álitnar hin óvaltasta undirstaða bóksaganna. Stundum loðir sögnin við einhverjar menjar eða mannvirki eða þá við einhverja sérstaklega venju. En allra oftast eru það þó örnefnin sem halda uppi minning viðburðanna en þótt þeir séu í sjálfu sér lítilsverðir. Í slíkum tilfellum er oft örðugt að segja hvort munnmælin hafi í raun réttri nokkurn viðburð við að styðjast eða hvort þau hafi ekki öllu heldur verið búin til til þess að gera venjuna eða menjarnar sjálfar merkilegar ef nafnið hefur virzt þýðingarmikið í sjálfu sér. Viðburðir þeir sem munnmælin halda helzt á loft eru alls ekki merkisviðburðir úr sögunni, heldur miklu fremur þess konar atvik sem eru sérstaklegs eðlis, en eru þó engu að síður áhrifsmikil og merkileg að sínu leyti. Þýðing sú sem munnmælin leggja í þessa viðburði snertir þannig ekki gjörvallt landið, heldur aðeins einstök héruð, einstaka bæi og einstakar ættir; um þetta allt láta þjóðsögurnar sér annt og ekki síður um blæinn á hinum einstöku atriðum.