Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Helgisögur/Refsidómar guðs

Þjóðsagnasafn sem kom út í Leipzig 1862-1864.

Nokkuð öðruvísi er þeim sögum varið og alvarlegra efnis en hinar í þessum flokki sem sýna það að illar athafnir manna eigi að mæta refsingu guðs. Í sjálfu sér verður ekki beinlínis sagt að þær sé kristilegs efnis þar sem mjög svipaðar hugmyndir koma fram í heiðni hjá Germönum og þaðan eru komnir hinir svonefndu guðsdómar í þrengri merkingu orðsins. Allt að einu er blærinn á slíkum sögum eins og þær ganga nú í munnmælum, þegar á allt er litið, að meira eða minna leyti kirkjulegur eða siðferðislegur, en alls ekki hið gagnstæða, og skal þeirra sagna því hér getið að svo miklu leyti sem þeirra er ekki áður getið við ýmis tækifæri.