Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Lagardýr

Þjóðsagnasafn sem kom út í Leipzig 1862-1864.

Næst er að geta lagardýranna og er það sannast að segja að af þeim fara miklu fleiri sögur og hjátrúarfyllri en af skorkvikindum. Í þessu atriði er allörðugt að gjöra greinarmun á milli yfirnáttúrlegra vera og þess sem er dýr í raun réttri, einmitt af því að vatnsandarnir eru vanir að bregða á sig ýmsum dýralíkum og smokka sér þannig í leyfisleysi inn undir dýraríkið. Það er trú um öll sjóskrímsli hvort heldur þau eru dýr eða andar að þau þekki nafn sitt og komi undireins og þau eru nefnd. En einkum á þetta við í „sjóvítum“ sem svo eru nefnd, en þeim er svo varið að sá hefur gert sig sekan að sjóvíti sem nefnir á sjó nafn einhverrar slíkrar óvættar og egnir hana með því að skipinu. Þykir þá öðrum skipverjum hans sem hann hafi fyrirgjört mötunni sinni og eigi þeir því að taka hana og skipta milli sín ef þeir komist til lands heilir á hófi, en hann skuli éta þurrt til vertíðarloka. Í þessari vísu eru upptalin nokkur sjóvíti:

„Varastu búra, hross og hund,
haltu svo fram um langa stund;
stökklinum stýrðu frá,
nautið ekki nefna má
nokkur maður sjónum á.“[1]

Þó eru sjóvíti miklu fleiri en þetta og er það einhver algildasta varúðarregla á sjó að nefna aldrei hval, heldur ávallt „stórfisk“ við hvern hval sem maður á, því undireins og maður nefnir eitthvert þeirra nafna sem sjóvíti sætir kemur sá hvalur sem nafnið á og vill granda skipinu ef honum gagnast það fyrir reyðarhvölum sem verja jafnan skipin fyrir illhvelum, bægja þeim frá og liggja ofan á þeim, en einkum er til þess nefnd steypireyðurin sem hér segir:

Svo er sagt að eitt sinn hafi reyður varið skip heilan dag og verið orðin mjög móð. En um kvöldið þegar farið var á stað í land kastaði einn hásetinn steini í blásturshol henni svo hún sprakk. En seinna fékk hann ókennileg veikindi svo hann rotnaði lifandi og þótti það vera hefnd fyrir ódrengskap hans.

Það er annars talin almenn regla að þegar steypireyður ver skip í sátri skuli ekki sitja lengur en að hún hafi farið tvo, aðrir segja þrjá, hringa kringum skipið og leggist hún þá ekki frá skuli annaðhvort kippa eða halda í land því þá sé illhveli neðansjávar eða í nánd. – Bæði af því að reyðarnar þykja mestu bjargvættir við illhvelum og eins af hinu að sumstaðar er það víst að vænta að þær leggi kálfum sínum á fjörðum inni hafa Íslendingar meðan sá manndómur var í þeim hlífzt við að skutla eða elta þær á land sjálfar, en bæði hafa þeir gert það við kálfa þeirra og hvötu fiskana því þangað sem reyðurin má vera í næði með kálfinn kemur hún ævinlega árið eftir.[2] Það segja menn að sé einkenni á öllum illhvelum að enginn reykur komi upp úr þeim þegar þau blása, heldur vatnsýrir einar, en upp af góðum hvölum leggur reyk mikinn þegar þeir blása; eru það almennt kallaðir skíðisfiskar, en hinir tannfiskar.

Það hefur verið trú og er enn að illhvelin sé svo gráðug að þau taki skip með mönnum og öllu saman í gin sér, brjóti skipið í smámola, en gleypi mennina; því þeir eru svo sólgnir í mannaket og svo þaulsætnir þar sem þeir hafa einu sinni komizt á það æti að sagt er að þeir haldi sig þar heilt ár eða lengur. Fiskimenn varast því að róa langa tíma eftir á þau mið sem illhveli hafa grandað skipum og náð mönnum. Mörg ef ekki öll illhvelin eru talin óætisfiskar og bannað í lögum að leggja suma þeirra sér til munns.

Ég skal nú nefna nokkur illhveli sem getið er í munnmælum. Búri ætla menn að sé hvalur sá sem Danir nefna „Kaskelotten“. Um hann hef ég engar sögur heyrt, en í illhvela tölu er hann talinn[3] Hrosshvelið segja sumir að sé í hestslíki, hneggi eins og hestur og hafi tagl sem hestar og vingsi því er það kemur nærri skipum með miklum boðaföllum. Af hundhvelinu kann ég engar sögur. Katthvelið hef ég heyrt að ætti að blása eins og köttur þegar það andar frá sér og vera með veiðihárum (kömpum) um kjaftinn. Um stökkulinn er það almenn trú að hann hafi blöðkur fyrir báðum augum fastar við hausinn að ofan og sjái hann því ekkert fram undan sér nema því aðeins að hann stökkvi upp úr sjónum sem menn segja að hann gjöri svo hátt að hann ekki aðeins þurrki sig upp af sjónum algjörlega, heldur sjái bæði láglendi og lítil fjöll undir sporð hans og því er hann stökkull kallaður. Sér hann þá niður undan blöðkunum og fram undan sér um leið, og með því einu móti hefur hann sjón og færist um leið áfram við hvert stökk um fjórar bárur. Þá varúð skal hafa á til þess að egna ekki stökkul að skipi að maður má aldrei nefna hann annað á sjó en léttir því hann er hættulegt illhveli og leitast við að færa allt í kaf sem hann sér fljóta, og því stekkur hann upp úr sjónum að hann er þá að skyggnast um hvort hann sjái ekkert á floti sem hann geti fleygt sér yfir, skip eða annað. Til þess að komast undan ofsókn stökkulsins eru tvö ráð helzt, annað það að fleygja út tómum kút vatnsheldum eða dufli sem flýtur vel og lofa honum að eltast við það,[4] því sagt er að hann hætti ekki fyrri að henda sig yfir það en hann sprengi sig því kúturinn eða duflið kemur óðara upp aftur þá hann færi það snöggvast í kaf. En á meðan fá skipverjar nóg undanfæri. Annað ráð er það ef stökkullinn eltir skip að halda beint undir sól því hann sér þá ekki skipið fyrir sólarglampanum þó hann stökkvi í loft upp.

  1. Auðkenndu orðin í vísunni eru allt sjóvíti og illhveli við þau kennd.
  2. Þannig er sagt að Arnfirðingar eigi oftast vísa von á reyðarkálfinum á hverju hausti undan reyði þeirri sem þar leggur á hverju sumri á firðinum með því að þeir vinna hann í septembermánuði.
  3. Um búrann er sagt á Breiðafirði að hann hefur stærstan haus allra hvala. Hann grandar skipum á þann hátt að hann leggur sinn skolt á hvort borð og klippir skipið sundur í miðju.
  4. Jón Eiríksson getur þess í neðanmálsgrein við 129. bls. af Konungsskuggsjá að sumir kalli hrosshvelið dettir, sprettfisk, stökkul, blöðruhval; eftir því ætti það þá allt að vera einn fiskur.