Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Umskiptingar – Hyllingar álfa (inngangur)

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsögur, ritstjórn Jón Árnason
Umskiptingar – Hyllingar álfa

Þjóðsagnasafn sem kom út í Leipzig 1862-1864.

Einkum er álfum gjarnt til að ná til sín börnum, bæði með því að skipta um þau meðan þau liggja í vöggu og með því að laða þau að sér, hylla þau eða heilla, þegar þau eru komin á legg og geta gengið úti við. Fyrir því varast menn að skilja nýfædd börn mannlaus eftir nema krossað sé bæði yfir barnið og undir það áður en það er lagt í vögguna til að varna þeim ófögnuði að um það verði skipt. Þess er og við getið að kona ein á Básum í Grímsey hafi aldrei gengið svo frá syni sínum meðan hann var ungur að hún skildi ekki eftir hjá honum Jónspostillu opna til að verja hann umskipting og öðru illu.

Þegar skipt er um börn er það barnið sem álfar láta í stað hins rétta barns ávallt illa lynt og óvært, og er sú orsök til þess að álfar velja úr sínum hóp afgamla og útlifaða karla og kerlingar og láta í stað hins barnsins í vögguna; það heitir umskiptingur. Af því það eru ævagamlar karlhrotur tannlausar sem álfar leggja aftur í vögguna taka umskiptingar aldrei tennur. Ekki er heldur hætt við að skipt verði um það barn sem búið er að taka tennur, og er til þess sú saga að einu sinni varð þess vart að tvær álfkonur voru komnar að barnsvöggu. En á meðan önnur þeirra var að koma í lag hnósanum sem þær ætluðu að leggja í vögguna fyrir hið rétta barn fór hin upp í það með fingrinum og fann að það var búið að taka eina tönn. Segir hún þá við hina:

„Upp er komin tyllitá og taktu á;
sjóvettlingur situr hjá og segir frá,“

því hjá vöggubarninu átti að sitja annað eldra sem sagði frá aðförum álfkonanna og nam þessi orð, og fóru þær þá óðar burtu með krógann sinn við svo búið. En ekki var hættan minni þó börnin væri vel á legg komin; því þá höfðu álfkonur þær brellur í frammi að þær brugðu á sig mynd móður barnsins eða fóstru eða einhvers þess er barnið var að elskast og heilluðu þau á eftir sér eða til sín á þann hátt. Stundum ginntu þær börn á gullum nokkrum sem börnin sóttust eftir. Sagt er að sum börn sem álfar hafa hyllt til sín hafi dvalið hjá þeim skemur, sum lengur og sum aldrei átt afturkvæmt til mannheima.

Aldrei hef ég heyrt þess getið að huldumenn hafi átt að skipta um börn eða hylla, en allajafna álfkonur.