Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Kraftaskáld (inngangur)

Þjóðsagnasafn sem kom út í Leipzig 1862-1864.

Eins og von er til hefur jafnan þótt meir kveða að skáldskap og hann álitinn áhrifameiri en óbundin ræða hvort sem er til lofs eða lasts. Þetta sama kemur og fram hvort heldur menn hafa átt að verjast árásum drauga eða djöfulsins því menn hafa haft trú að ef þeir ljóðuðu á mann að fyrra bragði og maður væri ekki viðbúinn að svara þeim aftur í ljóðum yrði sá maður vitlaus og kæmist á vald þeirra, en gæti maður svarað þeim aftur samstundis vísu yrðu árásir þeirra árangurslausar og þeir sneyptust við það burtu.

Bæði þeir menn sem voru viðbúnir hvenær sem þeir þurftu til að taka að kveða vísur sér til varnar, en þó einkum þeir sem kváðu svo að varð að áhrínsorðum eins og síðasta vísan bendir á, hafa verið kallaðir kraftaskáld eða ákvæðaskáld vegna þess að svo mikill kynngikraftur þótti fylgja kvæðum þeirra eða þeir væri svo andríkir að ekkert gæti við þeim staðizt. Þessi trú er mjög gömul og sýnir það auk annars þátturinn af Þorleifi jarlaskáld sem hefndi sín með því á Hákoni blótjarli og hirðmönnum hans að hann kvað um hann Jarlsníð sem varð bæði jarli og hirðmönnum hans að áhrínsorðum.

Hér skal nú geta nokkurra kraftaskálda á seinni öldum.